50skills, sem er leiðandi í hugbúnaðarlausnum á sviði ráðninga nýrra starfsmanna, tilkynnti í dag 360 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki. Fjármagnið mun nýtast félaginu við áframhaldandi þróun lausnarinnar og uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs á alþjóðlegum mörkuðum, með sérstakri áherslu á fyrirtæki á Norðurlöndum og Bretlandi með mikla starfsmannaveltu.

Starfsmannavelta er sífellt að aukast og vinnuveitendur eru að nýta nýjar lausnir til að auka skilvirkni og samkeppnishæfni. 50skills hefur þróað hugbúnaðarlausn sem styttir og einfaldar virkjun (e. onboarding) nýrra starfsmanna m.a. með miðlægu aðgengi að gögnum og samþættingum við önnur kerfi og lausnir sem vinnuveitendur nýta. Lausnin einfaldar til muna alla skjalagerð, undirritanir, þjálfunaráætlanir, launavinnslu og aðra ferla sem tengjast ráðningar- og mannauðsmálum.

“50skills ætlar að umbreyta því hvernig vinnuveitendur á heimsvísu virkja nýtt starfsfólk með hugbúnaðarlausn sem tryggir bætta verkferla, yfirsýn og sjálfvirknivæðingu þar sem hún á við,” segir Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi 50skills. “Starfsmannavelta er að aukast og breytast. Fólk vinnur í auknum mæli á mörgum vinnustöðum og notar sífellt fleiri þjónustur, tól og tæki á vinnustaðnum, sem nauðsynlegt er fyrir nýtt starfsfólk að fá sem fyrst aðgang að og læra á. Það er því til mikils að vinna að óskilvirkir ferlar séu ekki að flækjast fyrir eins og raunin er víða í dag. Markmið okkar er að gera viðskiptavinum okkar kleift að mæta þessari þörf á hagkvæman og skilvirkan hátt og bæta á sama tíma upplifun starfsfólks og nýrra starfsmanna.”

Þúsundir stjórnenda nota 50skills hugbúnaðinn. Þar á meðal má nefna stjórnendur fimm af tíu stærstu fyrirtækjum á Íslandi. Meðal viðskiptavina eru Icelandair, PLAY, Festi, Eimskip, Hagar, Samskip, Samkaup, Dominos, Icelandair Hotels, Seðlabanki Íslands, RÚV, Alvotech, CCP og sveitarfélög á borð við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ.

“Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem þróa lausnir sem miða að því að nútímavæða mikilvæga rekstrarþætti í fjölbreyttum atvinnugreinum”, segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks. “50skills leysir áskoranir sem mannauðsdeildir um allan heim standa frammi fyrir í tengslum við ráðningar og gerir þeim jafnframt kleift að vera í forystu þegar kemur að stafrænni þróun og utanumhaldi um fjarvinnu. Við hlökkum mikið til vegferðarinnar með 50skills teyminu.”

Um 50skills

50skills er íslensk hugbúnaðarlausn sem hjálpar vinnuveitendum að virkja nýtt starfsfólk á vinnustaðnum. Eftir ákvörðun um ráðningu er hægt að nýta 50skills til að straumlínulaga

allar aðgerðir og verkþætti sem taka við þegar ráða á nýjan starfsmann. 50skills hefur fengið vaxtastyrk frá Tækniþróunarsjóði og er í samstarfi við Advania á Íslandi. Frekari upplýsingar er að finna á 50skills.com.