Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Activity Stream, sem sérhæfir sig í íþrótta- og skemmtanaiðnaði, tilkynnti í dag kaup á tveimur fyrirtækjum. Activitiy Stream, sem telur Eyri og Frumtak sem stóra hluthafa, hefur vaxið um 250% frá ársbyrjun 2021 að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Fyrirtækið, stofnað árið 2015, hefur fest kaup á Yesplan, sem býður upp á lausnir við skipulagningu viðburða, og crowdEngage, sem heldur úti hugbúnaðarlausnum fyrir miðasölu og pöntunum hjá viðburðahúsum.

„Markmiðið okkar þegar við stofnuðum Activity Stream var að hraða stafrænni umbreytingu skemmtanageirans með því að bjóða upp á snjalltækni sem öll upplifunarvörumerki gætu náð tökum á, haft efni á og notið góðs af,“ segir Einar Sævarsson, forstjóri og meðstofnandi fyrirtækisins.

„Viðbót Yesplan og crowdEngage gerir það að verkum að lausnir Activity Stream munu spila lykilhlutverk hjá nokkrum af flottustu viðburðum og upplifunum heims.“

Vísisjóðurinn Eyrir sprotar fór með 32,4% hlut í Activity Stream í árslok 2021, samkvæmt síðasta ársreikningi. Frumtak 2 átti 24,1% hlut í fyrirtækinu um síðustu áramót.

Activity Stream var stofnað árið 2015 og er með skrifstofur í New York, London, Kaupmannahöfn og Belgrad. Meðal viðskiptavina eru leikhús á Broadway og í West End hverfinu í London.

Frétt fengin af vef Viðskiptablaðsins
Lesa má fréttatilkynninguna í heild sinni á vef Activity Stream