Ásthildur Otharsdóttir bætist í hóp eigenda og fjárfestingastjóra Frumtaks Ventures. Hún verður ásamt núverandi eigendum, leiðandi í uppbyggingu á nýjum vísisjóði, Frumtaki III, ásamt því að fylgja eftir núverandi fjárfestingum Frumtaks sjóðanna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Ásthildur hefur verið stjórnarformaður Frumtaks Ventures frá stofnun Frumtaks II árið 2015 og þekkir því vel til starfsemi félagsins. Hún hefur mikla reynslu af fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum og þekkingu á hvað þarf til að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta orðið leiðandi á sínu sviði. Hún hefur m.a. setið í stjórn Marel undanfarin 11 ár, þar af tæp 7 ár sem stjórnarformaður. Þar tók hún þátt í örum vexti og uppbyggingu félagsins á alþjóðavísu og tvískráningu þess á Euronext í Amsterdam. Áður leiddi hún viðskiptaþróun hjá Össuri, þ.m.t. yfirtökur og fjárstýringu og tók þátt í tvískráningu félagsins á NASDAQ í Kaupmannahöfn. Þá hefur hún starfað við rekstrarráðgjöf í Kaupmannahöfn hjá alþjóðlega ráðgjafafélaginu Accenture og setið í stjórnum ýmissa félaga,“ segir í fréttatilkynningunni.

Í febrúar greindi Viðskiptablaðið frá því að Ásthildur hafi ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér í stjórn Marels, en líkt og kemur fram að ofan sat hún í 11 ár í stjórn félagsins og gegndi stjórnarformennsku í tæp 7 ár.

Í tilkynningunni segir jafnframt að Ásthildur hafi lengi verið ötull talsmaður sjálfbærni og samfélagsábyrgðar í fyrirtækjarekstri og lagt áherslu á þau miklu framtíðartækifæri sem felast í þróun á þeim sviðum. „Í dag situr hún m.a. í háskólaráði Háskóla Íslands og stjórn Íslandsstofu auk þess að hafa nýverið tekið sæti í ráðgjafaráði Boards Impact Forum, norræns samráðsvettvangs um sjálfbærni og umhverfismál í samstarfi við Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum).“

„Ég hlakka mikið til nýs hlutverks hjá Frumtaki Ventures. Frumtaksteymið hefur unnið mikið uppbyggingarstarf við rekstur vísisjóða og ég hef dáðst að elju þeirra og þrautseigju úr sæti stjórnarformanns Frumtaks Ventures undanfarin 6 ár. Við deilum þeirri framtíðarsýn að með eflingu hugvits, nýsköpunar og tækni í atvinnulífinu verði til þeir burðarásar verðmætasköpunar sem við þurfum á að halda til að tryggja áframhaldandi hagsæld á Íslandi. Fjármögnun sprota- og vaxtarfyrirtækja er lykilforsenda fyrir því. Það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá okkur, bæði við að halda áfram uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem við störfum með í dag og bæta nýjum í hópinn þegar þriðja Frumtakssjóðnum verður lokað á næstunni,“ er haft eftir Ásthildi í fréttatilkynningunni.

„Við teljum okkur lánsöm að Ásthildur, sem við höfum átt mjög ánægjulegt og farsælt samstarf við síðastliðin ár, hefur gengið til liðs við Frumtak Ventures, bæði í hóp eigenda og fjárfestingastjóra. Stærsta áskorun í fjárfestingum vaxtafyrirtækja er að raungera vöxt þeirra á alþjóðlegum mörkuðum sem og sækja það fjármagn sem til þarf. Þarna hefur Ásthildur mjög yfirgripsmikla þekkingu bæði að sækja fjármagn sem og við uppbyggingu og rekstur alþjóðlegra vaxtafyrirtækja. Ásthildur kemur með ómetanlega þekkingu, reynslu og tengslanet sem mun styrkja starfsemi Frumtaks Ventures enn frekar,“ segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures, í fréttatilkynningunni.