Frétt upprunalega á vef Fréttablaðsins.

Markmið Controlant er að sem flestir í heiminum geti fengið örugg lyf, ásamt því að minnka lyfja- og matarsóun. Því erum við glöð og stolt að geta lagt okkar af mörkum í heimsfaraldrinum og hafa þar jákvæð áhrif,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant.

Controlant er hugbúnaðar- og vélbúnaðarfyrirtæki sem framleiðir hitastigs- og staðsetningarskynjara sem settir eru með vörum til flutninga og halda uppi rauntímaeftirliti á allri virðiskeðjunni, svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu vörunnar hvar sem er í heiminum.

„Skynjararnir skapa verðmætar upplýsingar um hvar vandamál liggja á leið vörunnar, hvar vörurnar eiga á hættu að skemmast og hvar óhöppin verða, en allar upplýsingar koma sjálfkrafa, svo framarlega sem lausnin frá Controlant er notuð. Með henni ertu engum háður, veist allt um virðiskeðjuna þína og getur mælt hvernig flutningsaðilinn er að standa sig, því menn nota mismunandi pakkningar til að verja vörurnar fyrir hitastigsáföllum og geta þá séð hvernig allt virkar úti í mörkinni,“ útskýrir Gísli.

Yfir níutíu prósent samstarfsaðila Controlant eru í lyfjageiranum, en fyrirtækið starfar einnig með aðilum í matvælageiranum.

„Í dag eru gerðar strangar kröfur þegar lyf eru flutt á milli landa og þá verður að vera hægt að sanna að hitastigið hafi verið innan marka áður en sjúklingar mega fá lyfið. Lyfjafyrirtæki geta því ekki starfað nema að hafa þessar upplýsingar tiltækar og það gerir okkur að mjög mikilvægum aðila í þeirri starfsemi,“ segir Gísli, sem hjá Controlant vinnur líka náið með flutningsaðilum.

„Við látum vita ef áhætta er til staðar og getum þá brugðist við til að koma í veg fyrir að vara skemmist, og nú þegar höfum við afstýrt tjónum sem hlaupa á tugum milljarða hjá stóru lyfjafyrirtækjunum,“ segir Gísli.

Lykilaðili fyrir lyfjafyrirtæki

Controlant var stofnað árið 2007 í því augnamiði að búa til þráðlausa skynjara sem gefa upplýsingar á rauntíma.

„Við stofnuðum fyrirtækið rétt áður en svínaflensufaraldurinn skall á og ákváðum þá að herja á lyfjageirann. Þegar svínaflensan svo kom var farið að búa til bóluefni sem keypt voru til landsins og var fyrsta stóra verkefnið okkar í lyfjageiranum að vakta bóluefnin sem komu til landsins. Nú, í miðjum heimsfaraldri COVID-19, er eins og framtíð Controlant hafi verið skrifuð í skýin, því nú keppast lyfjafyrirtæki heimsins við að koma með bóluefni sem fyrst og við erum orðin lykilaðili í þeirra starfsemi, til að geta dreift bóluefnum á þeim hraða og skala sem þarf á næstu mánuðum. Nú þarf að senda lyfin express frá framleiðanda yfir á sjúkrahúsin, sem þýðir að allar rauntímaupplýsingar og tímarammar, til að geta tekið ákvörðun um hvort lyf megi fara í sjúkling eða ekki, eru styttri og ekki gerlegt að gera þetta nema með rauntímatækni. Við höfum undirbúið okkur vel fyrir þetta og nú er allt að raungerast,“ segir Gísli.

Allt gerist nú á ljóshraða

Controlant er íslenskt fyrirtæki frá A til Ö og eru allar uppfinningar og búnaður fyrirtækisins íslenskt.

„Við höfum stækkað mikið síðan 2007 og erum nú með yfir 90 starfsmenn og hundruð þúsunda tækja sem vakta lyf í öllum löndum heimsins. Við gerum ráð fyrir að ráða allt að fimm manns á viku næstu misserin. Það hefur verið mikill vöxtur og árangur síðastliðna átján mánuði. Þar hefur COVID-19 auðvitað áhrif, en við höfðum einnig tryggt okkur samninga við fjögur stærstu lyfjafyrirtæki heims, auk ótal smærri. Hlutirnir hafa gerst ansi hratt og nú gerist allt á ljóshraða út af COVID-19,“ segir Gísli.

Nánar er hægt að lesa um málið á vef Controlant.