Frábær frétt um flotta teymið í Controlant og nýjar áskoranir og verkefni sem þau vinna að í Fréttablaðinu.

Hérna er brot af umfjölluninni:

Hátæknifyrirtækið Controlant hefur gengið frá hlutafjáraukningu upp á meira en 2 milljarða króna, sem ætlað er að renna stoðum undir fáheyrðan tekjuvöxt. Samningar, sem Controlant hefur gert við alþjóðlega lyfjarisa og varða meðal annars dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 á heimsvísu, verða til þess að fyrirtækið tífaldar veltu sína á tveimur árum.

Controlant hefur þróað hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnir til að fylgjast með vörum í flutningi og halda uppi rauntímaeftirliti á allri virðiskeðjunni, svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu vörunnar hvar sem er í heiminum. Íslenska fyrirtækið hafði fyrr á árinu gefið út breytanlegt skuldabréf að fjárhæð 1.250 milljónir króna.

„Skuldabréfinu var ætlað að fjármagna innleiðingu á lausninni hjá okkar helstu viðskiptavinum og koma okkur á góðan stað fyrir næstu hlutafjáraukningu. Svo gerist það í sumar að áætlanir okkar snarbreytast. Það sem við bjuggumst við að myndi gerast á næstu tveimur árum er að fara að gerast á 6-12 mánuðum. Þess vegna þurftum við að flýta næstu hlutafjáraukningu og við gengum frá henni núna í september,“ segir Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, í samtali við Markaðinn.

Stjórnendur Controlant, í samstarfi við Arion banka, lögðu upp með að sækja 1 milljarð króna, en niðurstaðan varð sú að félaginu bárust áskriftir að fjárhæð rúmlega 2 milljarðar króna. Ákveðið var að stækka hlutafjárútboðið í samræmi við eftirspurnina.

„Við erum að fá stofnanafjárfesta í hópinn, sem eru almennt ekki að fjárfesta í félögum eins og Controlant. Það sýnir hversu mikla trú fjárfestar hafa á félaginu.“

Hlutafjáraukningin skiptist nokkurn veginn til helminga, að sögn Guðmundar. Núverandi hluthafar tóku helming og nýir hluthafar hinn. Þeirra á meðal eru bæði stofnanafjárfestar og einkafjárfestar. „Við erum að fá stofnanafjárfesta í hópinn, sem eru almennt ekki að fjárfesta í félögum eins og Controlant. Það sýnir hversu mikla trú fjárfestar hafa á félaginu,“ segir Guðmundur. Alls hafa fjárfestar lagt Controlant til rúmlega 6 milljarða króna frá stofnun þess.

„Við vorum með rétt um 400 milljóna króna veltu á síðasta ári og hún stefnir í um 1 milljarð á þessu ári. Miðað við þá samninga sem við höfum gert, erum við að horfa fram á veltu upp á 4-5 milljarða króna á árinu 2021,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að starfsmenn fyrirtækisins séu í dag um 100 talsins, en verði líklega hátt í 200 í lok næsta árs.