Fróði hefur víðtæka reynslu af lögmennsku, einkum á sviði félaga-, samninga- og hugverkaréttar. Hann hefur annast lögmannsstörf á flestum sviðum viðskiptalífsins og meðal annars veitt fjölda nýsköpunarfyrirtækja ráðgjöf, bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur m.a. starfað hjá Vík lögmannsstofu, CCP og Símanum.

Fróði er með meistaragráðu í lögum (LL.M.) frá Columbia háskólanum í New York og kandidatspróf frá Háskóla Íslands auk réttinda til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hann er aðjúnkt við Háskólann á Bifröst þar sem hann hefur meðal annars annast kennslu í eigna- og veðrétti og kaupum og sölu fyrirtækja. Þá hefur hann verið stundakennari í félagarétti við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og í samningarétti við lagadeild Háskóla Íslands.

„Ég hef lengi verið viðloðandi tækni- og nýsköpunargeirann í starfi og fundist afskaplega gefandi að starfa fyrir aðila sem eru að skapa ný tækifæri og stækka,“ segir Fróði Steingrímsson. „Ég er ákaflega þakklátur fyrir að fá núna tækifæri til að einbeita mér enn frekar að slíkum störfum og vinna með fagfólki sem brennur fyrir sömu málum.“

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks, segir þekkingu og reynslu Fróða koma að góðum notum. „Fróði er frábær viðbót við Frumtaksteymið og við bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa. Hann er með mikla reynslu sem kemur að góðum notum við áframhaldandi uppbyggingu og þróun á starfsemi okkar. Við leggjum höfuðáherslu á traust samstarf og stuðning við fyrirtækin í eignasafninu og þar mun Fróði líka gegna lykilhlutverki.“

Sjóðir Frumtaks fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum með öflug stjórnendateymi sem sjóðsstjórnendur telja að hafi mikla möguleika á að verða leiðandi á sínu sviði á alþjóðavísu.