Spectaflow, sem þróar hugbúnaðarlausnir fyrir hótel- og gistimarkaðinn, hefur tryggt sér 260 milljóna króna fjármögnun sem er leidd af Frumtaki með þátttöku Nýsköpunarsjóðs. Fjármagnið mun nýtast félaginu við áframhaldandi þróun hugbúnaðar og uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Spectaflow var stofnað árið 2019 af raðfrumkvöðlunum Pétri Orra Sæmundsen, Erlendi Steini Guðnasyni og Frans Veigari Garðarssyni sem allir starfa hjá félaginu í dag.  Félagið hefur áður verið fjármagnað af Nýsköpunarsjóði og með hlutafjárframlagi englafjárfesta, þ.m.t. Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, Hilmars Veigars Péturssonar, forstjóra CCP og Þorsteins Friðrikssonar, stofnanda TeaTime og Plain Vanilla, ásamt styrkjafé. 

Um eitt hundrað hótel og gististaðir í fimm löndum nýta sér hugbúnað félagsins og stefnt er að því að þau verði yfir 12.000 innan 5 ára. Spectaflow markaðssetur lausnir sínar bæði undir eigin vörumerki og í samstarfi við hótelbókunarkerfi (e. white label). Tekjuöflun byggir á fjölda herbergja í rekstri hjá hverjum viðskiptavini.

Pétur Orri Sæmundsen, stofnandi og framkvæmdastjóri Spectaflow:

„Spectaflow er sérsniðið að þörfum hótel- og gistimarkaðarins og gerir stjórnendum kleift að skipuleggja og stýra daglegum rekstrarþáttum, eins og herbergisumsjón, viðhaldi og gestaþjónustu, á skilvirkan hátt. Kerfið auðveldar til muna alla teymisvinnu fjölbreyttra starfsmannahópa. Við áætlum að allt að 15% af vinnutíma starfsfólks í herbergisumsjón fari í að finna út úr hvaða herbergi eigi að þrífa næst eða hvaða viðhaldsverkefni sé næst á dagskrá. Með lausninni okkar hefur starfsfólk aðgengi að þessum upplýsingum í rauntíma á myndrænan og einfaldan hátt í gegnum smáforrit.“

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks:

„Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem þróa lausnir sem miða að því að nútímavæða mikilvæga rekstrarþætti í fjölbreyttum atvinnugreinum og þar er Spectaflow engin undantekning. Við sjáum fjölmörg tækifæri til hagræðingar í hótelgeiranum sem munu skila sér í hagkvæmari rekstri, aukinni starfsmannaánægju, minni sóun og ánægðari viðskiptavinum. Við hlökkum til vegferðarinnar framundan með öflugu teymi frumkvöðla og meðfjárfesta.“