Framtakssjóður á vegum VEX hefur eignast um 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics sem velti um milljarði króna í fyrra. Sjóðurinn tók þátt í 650 milljóna króna hlutafjáraukningu eins og aðrir stórir hluthafar og aðilar þeim tengdum og keypti hluti Frumtaks og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins en það gerðu aðrir hluthafar AGR Dynamics einnig. Þetta segir Haukur Þór Hannesson, framkvæmdastjóri AGR Dynamics, í samtali við Markaðinn.

AGR Dynamics, sem stofnað var árið 1997 og er með rúmlega 70 starfsmenn, hefur þróað hugbúnað sem gerir söluspár fyrir heild- og smásala. Þær gera viðskiptavinum kleift að lágmarka bundið fé í birgðum, draga úr sóun og auka þjónustu. Fyrirtækið sinnir um tvö hundruð viðskiptavinum í 15 löndum en um 90 prósent teknanna koma erlendis frá. AGR Dynamics rekur starfsstöðvar á Íslandi, í Danmörku, Bretlandi og Kanada.

Haukur Þór segir að fyrirtækið hafi vaxið um 25 prósent á ári í 15 ár. Fyrirtækið, sem þrói hugbúnaðinn hér á landi, hafi verið rekið réttum megin við núllið undanfarin ár. Hið nýja hlutafé verði nýtt til að halda vextinum áfram „og gefa jafnvel í hvað það varðar“. Fjármagnið verði fyrst og fremst nýtt til að efla sölu- og markaðsmál á heimamörkuðum sem séu í Norður-Evrópu og Ameríku. Eins fari hluti af fjármagninu í þróun á skýjalausn sem sé sniðin fyrir minni og millistór fyrirtæki.

Fyrir kaupin átti vísisjóðurinn Frumtak 29 prósenta hlut í AGR Dynamics og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sex prósenta hlut. „Frá því að vísisjóður Frumtaks gerðist hluthafi hefur fyrirtækið tífaldast að stærð,“ segir hann og bætir við að sjóðirnir hafi ávaxtað sitt fé vel.

Á meðal viðskiptavina séu verslanakeðjur sem reki hundruð verslana, eins og til dæmis Søstrene Grene, sem reki 300 verslanir í sjö löndum. „Þetta eru umfangsmiklar aðfangakeðjur sem byggja á því að kerfið okkar taki ákvörðun um hve mikið eigi að kaupa inn af hverri einustu vöru í hverri einustu verslun til að tryggja að varan sé til þegar viðskiptavinir þurfa á henni að halda en á sama tíma að eiga eins lítið af henni og mögulegt er til að halda fjárbindingu í birgðum í lágmarki,“ segir hann.

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks, segir að AGR Dynamics hafi verið ein af fyrstu fjárfestingum Frumtaks árið 2009. „Félagið hefur á þessum tíma orðið leiðandi í birgðastýringalausnum og sýnt og sannað hvað slíkar lausnir þurfa til að bera til að skila þeim árangri sem til er ætlast. Nú þegar Frumtak hefur lokið vegferð sinni með félaginu er ánægjulegt að sjá sterka fjárfesta koma að félaginu sem gerir því kleift að nýta þá miklu vaxtarmöguleika sem eru fyrir hendi,“ segir hún.

VEX, sem stýrt er af Benedikt Ólafssyni og Trausta Jónssyni, rekur tíu milljarða framtakssjóð. Þeir stöfuðu saman á árum áður hjá Stefni, sjóðastýringu í eigu Arion banka. Á meðal þeirra sem lögðu sjóðnum, sem ber nafnið VEX I, til fé eru helstu lífeyrissjóðir landsins, tryggingafélagið VÍS og ýmsir einkafjárfestar eins og Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International. Um er að ræða fyrstu fjárfestingu sjóðsins. Hann fjárfestir í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar. Sjóðurinn áformar að fjárfesta í fjórum til átta fyrirtækjum og að eignarhaldstími í hverju félagi verði á bilinu þrjú til sjö ár.

Tekjur AGR Dynamics uxu um 57 prósent á milli áranna 2018 og 2019 í 945 milljónir króna. Tekjurnar jukust einungis um nokkur prósent í fyrra, að sögn Hauks Þórs, sem rekja megi til áhrifa af Covid-19. Eins og fyrr segir hefur félagið vaxið að meðaltali um 25 prósent undanfarin 15 ár.

Árið 2019 hagnaðist AGR Dynamics um 34 milljónir og um 30 milljónir króna árið 2018. Arðsemi eiginfjár var tólf prósent á árinu 2019. Eigið fé félagsins var 304 milljónir króna við árslok 2019 og eiginfjárhlutfallið var 55 prósent.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sá um sölu- og fjármögnunarferlið og var ráðgjafi AGR Dynamics, Frumtaks og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í viðskiptunum.