Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop hefur gert samning við Frumtak Ventures og núverandi hluthafa um að leggja fyrirtækinu til tæplega 250 milljónir króna í nýtt hlutafé. Hlutafjáraukningin mun styðja við frekari vöxt fyrirtækisins, bæði vöruþróun og hraðari sókn á erlenda markaði. Nýverið keypti bandaríski leikfangaframleiðandann Toynami réttinn að framleiðslu á Tulipop leikföngum sem munu koma á markað síðar á þessu ári. Samhliða er á dagskrá að gefa út barnabækur erlendis, gera teiknimyndir og þróa Tulipop leiki. Tulipop hannar og framleiðir breiða línu af gjafavörum fyrir börn á öllum aldri og hefur hlotið alþjóðleg hönnunarverðlaun, meðal annars bresku Smallish Design Awards á síðasta ári. Auk þess hafa verið gefnir út leikir fyrir snjalltæki og barnabók. Tulipop vörulínan hefur verið seld til um 120 verslana í 14 löndum, auk þess að vera til sölu í fjölda verslana hérlendis.

Frekari upplýsingar er að finna á http://www.tulipop.is/