Hugbúnaðarfyrirtækið MainManager hefur verið selt til hins norska View Software. Á meðal hluthafa MainManager var vísisjóðurinn Frumtak. Þetta kemur fram í tilkynningu.

MainManager þróar hugbúnaðarkerfi fyrir fasteignir. „Fasteignastjórnun er markaður sem hefur verið í örum vexti á heimsvísu. Í framtíðinni þarf betri lausnir til að tryggja sjálfbærni og samtengingu hinna ýmsu sviða, hlutverka og kerfa. Með kaupunum á MainManager styrkjum við stöðu okkar sem framleiðandi sjálfbærra fasteignakerfa. Þetta er líka stórt skref til frekari vaxtar á evrópskum markaði.“ sagði Sten-Roger Karlsen, forstjóri View Software.

Tekjur MainManager árið 2019 voru 327 milljónir króna og hagnaðurinn 54 milljónir króna. Eigið fé félagsins var 204 milljónir krójna og eiginfjárhlutfallið um 73 prósent við árslok 2019, að því er fram kemur í ársreikningi.

Í tilkynningunni segir að fasteignir beri ábyrgð á 40 prósent af allri kolefnislosun í heiminum. „11 prósent af þessari losun eru vegna framleiðslu á efnum og verktakavinnu. Á sama tíma er heimurinn að ganga í gegnum mesta byggðavöxt í sögunni. Það bætast við um 1,5 milljón manna við íbúatölu í borgum í hverri viku. Þetta þýðir að kolefnislosun í byggingargeiranum hefur haldið áfram að hækka um eitt prósent árlega frá 2010. Það er áætlað að tveir þriðju bygginga sem eru til í dag verði enn þá til 2050. Á sama tíma hafa endurbætur á byggingum minna en 1 prósent árleg áhrif á núverandi byggingar. Þetta er mikil loftslags­áskorun og á sama tíma frábært tækifæri til að nýta tæknina til þess að hafa jákvæð áhrif,“ segir í tilkynningunni.

Gunnlaugur B. Hjartarson, stofnandi MainManager, segir að teymið sé ánægt með að verða hluti af View Software. „Þar höfum við fundið samstarfsaðila sem rímar fullkomlega við okkar framtíðarsýn og metnað til þess að verða leiðandi fyrirtæki í þessum iðnaði á Norðurlöndunum. Við erum að sjá miklar breytingar í byggingariðnaðinum þar sem fasteignaeigendur eru að verða miklu meira meðvitaðir um stöðu eigna sinna með því að nota fasteigna­stýringa­kerfi. Það gerir þeim kleift að taka betri ákvarðanir og gera ný verkefni meira sjálfbær,” sagði hann.

Samkvæmt ársreikningi 2019 átt hann 15 prósenta hlut í fyrirtækinu, Frumtak 23 prósenta hlut og Íslenskir aðalverktakar 12 prósenta hlut.

Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks, segir að MainManager sé frábært fyriræki sem eigi sér bjarta framtíð. „Frumtak hefur verið hluthafi í áratug og stutt vel við félagið. Það hefur verið vegferð að fylgjast með sókn félagsins á erlendan markað og verða leiðandi í sjálfbærum lausnum fasteignastjórnunnar. Það er sérstaklega ánægjulegt þegar félögin í eignasafni Frumtaks ná árangri og leggja þannig sitt af mörkum til þess að gera sprota og nýsköpunarfyrirtæki að áhugaverðum fjárfestingakosti,” sagði hún.