PLAIO, sem þróar hugbúnaðarlausnir fyrir samheitalyfjaiðnaðinn, tilkynnti í dag 300 milljón króna fjármögnun frá Frumtaki. Fjármagnið mun nýtast félaginu við áframhaldandi þróun hugbúnaðar og uppbyggingu sölustarfs á alþjóðlegum mörkuðum. PLAIO hefur þegar haslað sér völl á samheitalyfjamarkaðinum og eru Coripharma og MS Pharma á meðal viðskiptavina þess.

PLAIO hefur þróað skýjalausn sem er sérsniðin að þörfum samheitalyfjaframleiðenda og gerir þeim kleift að skipuleggja framleiðslu og hráefnisinnkaup á skilvirkan hátt með myndrænni framsetningu. Kerfið leggur grunn að sjálfvirknivæðingu framleiðsluskipulagningar á grunni bestunaraðferða og gervigreindar. Viðskiptavinir félagsins hafa náð fram umtalsverðu rekstrarhagræði með notkun lausnarinnar sem gefur aukna yfirsýn, bætir ákvarðanatöku og dregur úr sóun. Félagið var stofnað af Jóhanni Guðbjargarsyni, tölvunarfræðingi, sem fékk til liðs við sig meðstofnendurna Árna Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóra vörustjórnunarsviðs hjá alþjóðlega samheitalyfjafélaginu MS Pharma, Eyjólf Inga Ásgeirsson, aðstoðarprófessor við Háskólann í Reykjavík og Hlyn Stefánsson, dósent við Háskólann í Reykjavík.

“PLAIO leysir ýmsar áskoranir í framleiðsluskipulagningu samheitalyfjafyrirtækja sem hingað til hefur í raun verið ótrúlega frumstæð, gjarnan unnin í töflureikni á óskilvirkan hátt sem veitir lítinn sveigjanleika og eykur líkur á mannlegum mistökum,“ segir Jóhann Guðbjargarson, stofnandi og framkvæmdastjóri PLAIO. “Lausnirnar okkar gera viðskiptavinum kleift að skipuleggja sig á einfaldan og markvissan hátt. Þá er auðvelt að gera breytingar á fyrri áætlunum sem er mjög mikilvægt í síkviku rekstrarumhverfi nútímans. Við höfum þróað hugbúnaðinn undanfarin 2 ár í nánu samstarfi við viðskiptavini og finnum fyrir miklum áhuga á lausnunum okkar á erlendum mörkuðum. Við sjáum líka mikil tækifæri í áframhaldandi þróun á sjálfvirknivæðingu framleiðsluskipulagningar sem byggir á nýjustu bestunaraðferðum og gervigreind.” 

“PLAIO teymið býr yfir víðtækri reynslu á framleiðslustýringu í samheitalyfjaiðnaðinum og djúpri þekkingu á hugbúnaðargerð, bestun og gervigreind. Félagið er í lykilstöðu til að svara kalli markaðarins fyrir skilvirkar stafrænar lausnir og verða leiðandi á sínu sviði,“ segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks. “Lausnirnar hjálpa viðskiptavinum að tryggja að réttar vörur komist á réttan stað á réttum tíma á bæði hagkvæman og sjálfbæran hátt. Við sjáum mikil tækifæri í áframhaldandi þróun og markaðssetningu á lausnum félagsins og hlökkum til vegferðarinnar framundan með PLAIO teyminu.“

Um PLAIO

PLAIO sérhæfir sig í hugbúnaði sem aðstoðar við skipulagningu og framleiðslustýringu fyrir lyfjafyrirtæki. Lausnin hefur verið í þróun undanfarin ár í náinni samvinnu við Coripharma og MS Pharma og hefur þegar sannað sig með umtalsverðri hagræðingu og sparnaði. Nýjasta viðbót kerfisins sem nú er í smíðum nýtir gervigreind til að aðstoða notendur við skipulagningu sem dregur úr handavinnu og leiðir til markvissari áætlana. Markmið fyrirtækisins er að verða leiðandi á heimsvísu á þessu sviði. Frekari upplýsingar er að finna á plaio.io.