Sigríður Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Tesco Bank í Bretlandi, hefur tekið sæti í stjórn Frumtaks Ventures. Magnús Torfason, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sem setið hefur í stjórninni frá árinu 2015, var kjörin stjórnarformaður félagsins í gær. Fráfarandi stjórnarformaður, Ásthildur Otharsdóttir, steig úr stjórninni en hún tók nýverið við starfi fjárfestingastjóra hjá félaginu og bættist í hóp eigenda þess. Gunnar Engilbertsson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi og fjárfestir, situr einnig í stjórn Frumtaks Ventures.

Sigríður er framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Tesco Bank í Bretlandi. Hún hefur gegnt fjölbreyttum leiðtogahlutverkum á sviði nýsköpunar víða um heim, m.a. leitt stafræna umbreytingu (e. digital transformation) hjá American Express International, þar sem hún starfaði í 14 ár í Bandaríkjunum, Bretlandi, Singapore og Ástralíu, sem og hjá Santander í Bretlandi og nú síðast Tesco Bank.

Störf hennar hafa einkum falist í þróun og markaðssetningu stafrænna lausna sem miða að því að leysa þarfir viðskiptavina og auka þjónustustig. Á þessum tíma hefur hún leitt ýmis samstarfsverkefni við frumkvöðla á sviði stafrænnar þróunar og fjártækni og náð þar markverðum árangri. Sigríður lauk doktorsprófi í viðskiptafræðum, á sviði leiðtogafræða og nýsköpunar, frá Manchester Business School, MBA frá IESE í Barcelona og BS próf í viðskiptafræðum frá Coastal Carolina University. Hún situr í stjórn Auto Trader Group PLC sem er skráð í kauphöllinni í London.

Magnús stýrir meistaranámi Háskóla Íslands í nýsköpun og viðskiptaþróun. Hann var áður lektor við Harvard Business School og kenndi þar frumkvöðlafræði í MBA námi skólans. Hann hefur einnig haldið ýmis stjórnendanámskeið tengd nýsköpun og frumkvöðlafræði í Bandaríkjunum, Evrópu og Kína. Hann er stjórnarformaður Arctic Stone, situr í stjórn Handpoint og var einn af stofnendum þess fyrirtækis. Auk þess situr hann í ráðgjafaráði Snjallræðis og er varamaður í Vísinda- og tækniráði. Magnús lauk doktorsprófi í viðskiptafræði frá Columbia Business School og er með BS gráður í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Gunnar veitir bönkum, lífeyrissjóðum, fjárfestum og fyrirtækjum ráðgjöf á sviði fjármála og fjárfestinga auk þess að stýra eigin fjárfestingum. Fyrri störf Gunnars eru meðal annars Forstöðumaður í eignastýringu hjá slitabúi Glitnis, framkvæmdastjóri Landsbankans-Framtaks og Íslenska hugbúnaðarsjóðsins og sérfræðingur hjá Deloitte (Stoð-endurskoðun). Hann hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, bæði almenningshlutafélaga og félaga í einkaeigu. Gunnar er með BS próf í reikningshaldi og fjármálum frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun.