Fréttin birtist á vef Fréttablaðsins.

Engum dylst að íslenskt heilbrigðiskerfi er undir miklu álagi þessa dagana. COVID-19 sjúklingum fjölgar dag frá degi og meirihluti þeirra tekst á við veikindi sín í heimahúsum. Mikinn mannafla þarf til að fylgjast með líðan þessara sjúklinga og þróun einkenna. Ef sjúklingum heldur áfram að fjölga mun gæðum þjónustunnar óhjákvæmilega hraka.

Heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekickhealth bauð fram aðstoð sína til þess að leysa hinn aðsteðjandi vanda. Dagsdaglega þróar fyrirtækið stafrænar heilbrigðismeðferðir, þar sem tækninni er beitt til þess að bæta meðferð sjúklinga með ýmsa langvinna sjúkdóma. Á mettíma þróaði Sidekick, í samvinnu við fjölmarga aðila, kerfi sem gefur COVID-19 sjúklingum færi á að senda upplýsingar um líðan sína í gegnum smáforrit, sem og vefgátt sem leyfir heilbrigðisstarfsfólki að meta hvernig sjúkdómurinn er að þróast. Einnig býður kerfið upp á bein samskipti milli sjúklings og heilbrigðisstarfsfólks.

„Þetta gerðist mjög hratt. Við buðum fram aðstoð okkar enda vorum við sannfærð um að við gætum orðið að liði. Þær stafrænu lausnir sem við höfum þróað á síðustu sex árum innihalda flesta þá þætti sem þurfti í lausnina og því höfðum við traustan grunn til að byggja á. Það einfaldaði verkefnið mikið,“ segir Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri Sidekick.

Sidekickhealth er 22 manna fyrirtæki með fjölmarga viðskiptavini um allan heim. Það var því ljóst að aðstoðar var þörf.

Allir leggjast á eitt á neyðartímum

„Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum greip boltann á lofti og ég fékk símtal frá almannavörnum klukkan hálf níu á föstudagskvöldi þar sem óskað var formlega eftir lausninni. Teymið okkar, leitt af Ólafi Viggóssyni þróunarstjóra, fór strax á fullt, vann langt fram á það kvöld og hefur unnið nánast allar vökustundir síðan. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins. Þessa fyrstu helgi hringdi ég einnig í Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, sem tók ákvörðun nánast samstundis um að bjóða aðstoð hóps vefþróara. Þá hefur samstarfið við hátt á annan tug sérfræðinga á Landspítalanum, þar á meðal Ragnar Frey Ingvarsson yfirlækni COVID göngudeildarinnar, Lovísu Björk Ólafsdóttur og Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalækna og Martin Inga Sigurðsson, prófessor og yfirlækni í svæfinga- og gjörgæslulækningum, Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítala, Almannavarnir og Landlæknisembættið gengið afar vel . Það er magnað að sjá að á neyðartímum þá leggjast allir á eitt og ryðja öllum hindrunum úr veginum,“ segir Tryggvi.

Margra mánaða vinna á tíu dögum

Kerfið var tilbúið til notkunar á tíu dögum, eitthvað sem hefði líklega tekið marga mánuði áður.

„Kerfið virkar þannig að sjúklingar svara einkennamatslista daglega og senda inn upplýsingar um líðan sína í gegnum smáforrit. Í gegnum vefgátt fylgist heilbrigðisstarfsfólk með þróun einkenna og metur hvort inngrips sé þörf – með stuðningi algóritma sem aðstoðar við að túlka áhættuna. Algóritminn er þróaður í samvinnu við ýmsa sérfræðinga, þar á meðal öfluga gagnavísindamenn leidda af Guðmundi Hafsteinssyni, sérfræðingi í gervigreind. Í gegnum smáforritið geta sjúklingar einnig átt samskipti við heilbrigðisstarfsfólkið og fengið ýmsar upplýsingar og stuðning í formi myndbanda og textaskilaboða,“ segir Tryggvi.

Að hans sögn er markmiðið að létta álaginu á kerfið og tryggja að þeir sem mest þurfi á aðhlynningu að halda fái hana og það tímanlega.

Mun geta vaxið með vandanum

„Það er alveg ljóst að ef þessi faraldur vex enn frekar þá þurfum við að leita í rafrænar lausnir. Það er því mikill léttir að komið sé fram tilbúið kerfi sem hefur þann eiginleika að geta vaxið með vandanum,” segir Ragnar Freyr Ingvarsson, yfirlæknir göngudeildar COVID-19.

Að hans sögn hefur kerfið verið í prufunotkun hjá nokkrum sjúklingum undanfarna daga og gefið góða raun. „Við höfum fengið mjög jákvæða endurgjöf af notkun kerfisins. Það er mjög notendavænt og þar er einnig ýmiskonar fræðsluefni aðgengilegt fyrir sjúklinga,” segir Ragnar Freyr. Að hans sögn verður notkun kerfisins innleidd í þrepum næstu daga.

„Þetta kerfi mun spara okkur kostnað en ekki síður mun það auka gæði eftirlitsins, öryggi sjúklinga og aðgengi þeirra að heilbrigðisstarfsfólki sem mest þurfa á aðstoð að halda,” segir Ragnar Freyr.