Eitt virtasta tímarit afþreyingariðnaðar fyrir krakka velur fyrirhugaða teiknimyndaseríu sem byggð er á hinum íslenska Tulipop ævintýraheim á forsíðu.

Ævintýrapersónur íslenska hönnunarfyrirtækisins Tulipop prýða forsíðu nýjasta tölublaðs alþjóðlega tímaritsins Kidscreen sem kom út í vikunni. Í tölublaðinu er umfjöllun um þau teiknimyndaverkefni sem kynnt verða á Cartoon Forum sýningunni sem haldin verður í Frakklandi í september nk. og var Tulipop valið úr hópi 83 verkefna til að prýða forsíðu blaðsins. Tímaritið Kidscreen er leiðandi á alþjóðavísu í umfjöllun um afþreyingariðnað fyrir krakka. Tímaritið fjallar m.a. um þróun, nýsköpun, framleiðslu og fleira sem tengist afþreyingariðnaði og er mjög virt meðal þeirra sem bæði kaupa og selja efni sem ætlað er yngri kynslóðinni. Tulipop hóf á síðasta ári undirbúning að framleiðslu 52 þátta teiknimyndaseríu fyrir sjónvarp í samstarfi við reynslumikla aðila úr teiknimyndageiranum. Nú er í framleiðslu svokallaður pilot þáttur fyrir sjónvarpsseríuna. Tobi Wilson, einn helsti handritshöfundur hinnar vinsælu þáttaraðar The Amazing World of Gumball, skrifar handritið, hið virta framleiðslufyrirtæki Blink Industries í London er meðframleiðandi, og verðlaunaðir leikstjórar, Simon Cartwright og Nina Gantz, leikstýra. Tulipop sjónvarpsserían verður kynnt á tveimur helstu hátíðum heims á sviði barnaefnis á haustmánuðum, Cartoon Forum í Toulouse í Frakklandi í september og á MIP Junior í Cannes í október. Cartoon Forum verður haldin dagana 12. – 15. september nk. Sýningin er sameiginlegur vettvangur fyrir framleiðendur hreyfimynda og teiknimyndapersóna til að kynna vörur sínar. Alls verða 83 verkefni frá 23 löndum kynnt til sögunnar á sýningunni en þau voru valin úr stórum hópi umsækjenda. Auk þess að vinna að undirbúning fyrir framleiðslu teiknimyndaseríu fyrir sjónvarp þá er Tulipop með í framleiðslu sérstaka teiknimyndaseríu til dreifingar á netinu, en eins og tilkynnt var fyrr á árinu réð Tulipop fyrirtækið Wildbrain, sem er leiðandi í framleiðslu afþreyingarefnis fyrir vefmiðla, til að framleiða tíu þátta teiknimyndaseríu og stýra YouTube-rás Tulipop á heimsvísu. “Við erum afar stolt af því að Kidscreen, sem er mjög virt í teiknimyndabransanum, skuli hafa valið Tulipop úr hópi 83 verkefna sem kynnt verða á Cartoon Forum, sem forsíðuefni ritsins. Það hefur lengi verið draumur okkar að gefa ævintýrapersónum okkar líf í formi sjónvarpsþátta og við hlökkum mikið til að kynna sjónvarpsseríuna fyrir lykilaðilum í teiknimyndabransanum á Cartoon Forum og MIP Junior í haust. Það að fá svo jákvæð viðbrögð frá mikilvægu riti á borð við Kidscreen gefur þátttöku okkur í þessum hátíðum byr undir báða vængi,” segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop. Um Tulipop Tulipop er margverðlaunað hönnunarvörumerki með höfuðstöðvar í Reykjavík og skrifstofu í New York. Fyrirtækið opnaði einnig nýverið sína fyrstu verslun á Skólavörðustíg 43 í Reykjavík. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 af Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara, og Helgu Árnadóttur, tölvunarfræðingi og MBA, en saman létu þær draum sinn rætast um að búa til einstakt vörumerki sem höfðar bæði til þeirra eigin barna og um leið barnsins í öðrum. Tulipop vinnur með alþjóðlegum framleiðendum sem hafa keypt réttinn að framleiðslu á vörum með Tulipop heiminum og persónunum, m.a. virta bandaríska leikfangaframleiðandanum Toynami.