Stefna í ábyrgum fjárfestingum

- 2021 -

 

Stefna í ábyrgum fjárfestingum

 1. Inngangur

Með því að setja sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar vill Frumtak Ventures stuðla að heilbrigðara atvinnulífi og bættum samskiptum við hagsmunaaðila. Stefnan tekur mið af reglum og öðrum stefnum Frumtak Ventures, svo sem fjárfestingastefnu, starfs- og siðareglum.

Frumtak Ventures leggur áherslu á ábyrgar fjárfestingar þar sem félagið telur að slík stefna hafi jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstraráhættu. Stefnunni er ætlað að skilgreina ramma sem gerir félaginu kleift að samþætta samfélagsábyrgð í fjárfestinga-ákvarðanir.

Ábyrgar fjárfestingar fela í sér:

  • Að Frumtak Ventures fari að lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma og á viðkomandi markaði.
  • Að með fjárfestingum Frumtaks Ventures verði ávallt leitast við að lágmarka neikvæð áhrif og ýta undir jákvæð áhrif fjárfestingarinnar á umhverfi, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila.
  • Að Frumtak Ventures skuldbindi sig til að stuðla að stöðugum umbótum á sviði umhverfis- og samfélagsmála og stjórnarhátta.
  • Að Frumtak Ventures innleiði áhættumat þar sem meta skal umhverfis-þætti, samfélagslega þætti og stjórnarhætti fyrirtækja þegar hugað er að fjárfestingum í þeim.

Stefna Frumtaks Ventures varðandi ábyrgar fjárfestingar er sett fram með hliðsjón af reglum um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment, (UN PRI) sem eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða tiltekin grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar og njóta til þess stuðnings Sameinuðu þjóðanna.

Sex meginreglur PRI eru:

  • Að taka tillit til umhverfisþátta, samfélagsmála og stjórnarhátta við greiningu fjárfestingakosta og við ákvörðunartöku.
  • Að vera virkur eigandi sem tekur tillit til umhverfisþátta, samfélagsmála og stjórnarhátta, bæði í eigendastefnu og í verki.
  • Að kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um umhverfisþætti, samfélagsmál og stjórnarhætti frá félögum sem fjárfest er í.
  • Að beita sér fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingastarfsemi.
  • Að vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna.
  • Að skila skýrslum um starfsemina og upplýsa um árangur við innleiðingu meginreglnanna.

2. Tilgangur stefnunnar

Tilgangur stefnunnar er að búa til skilvirka og trúverðuga nálgun á álitaefnum er snúa að ábyrgum fjárfestingum og jafnframt að leitast við að ná ásættanlegri arðsemi af fjárfestingum félagsins. Í stefnunni er lögð áhersla á virka upplýsingagjöf varðandi ábyrgar fjárfestingar. Slík upplýsingagjöf styður við greiningu, samanburð og mat á mismunandi fjárfestingakostum. Umhverfis- og samfélagsmál og stjórnarhættir eru allt mikilvægir liðir í mati félagsins á fjárfestingum. Það er mat félagsins að fyrirtæki sem taka tillit til þessara þátta í starfsemi sinni njóti ávinnings til lengri tíma litið.

Efnahagsumhverfi á Íslandi er ýmsum takmörkunum háð og hefur það áhrif á rekstrar- og fjárfestingaumhverfi Frumtaks Ventures. Framkvæmd stefnunnar þarf að taka mið af fjár-festingamöguleikum hverju sinni.

3. Aðferðafræði

Það er mat Frumtaks Ventures að samþætting umhverfismála, samfélagsmála og stjórnarhátta við mat á fjárfestingakostum leiði til betri ákvörðunartöku og dragi úr fjárhagslegri áhættu fyrir félagið.

Starfshættir Frumtaks Ventures varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á eftirfarandi aðferðafræði:

3.1. Virkar samræður

Frumtak Ventures vinnur með öðrum fjárfestum og hagsmunaaðilum að því að auka vitund á og vægi ábyrgra fjárfestinga á Íslandi. Hjá Frumtaki Ventures er lögð áhersla á að vinna með fyrirtækjum að skilgreindum forgangsmálum sem eru viðeigandi fyrir starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Tilgangurinn er að vera þátttakandi í að byggja upp vel rekið fyrirtæki, fjárfestum og samfélaginu til hagsbóta.

3.2. Samþætting í fjárfestingaákvörðunum

Í fjárfestingum Frumtaks Ventures eru umhverfismál, samfélagsmál og stjórnarhættir samþætt í greiningar á fyrirtækjum með það að markmiði að fá heildstæða mynd af starfsemi fyrirtækisins þannig að hægt sé að greina betur þau tækifæri og þá áhættu sem felst í fjárfestingunni. Mat á slíkri áhættu skal fylgja sömu meginreglum og mat á fjárhagslegri áhættu. Mat á áhættu og tækifærum getur verið mismunandi eftir atvinnugreinum og eignaflokkum.

3.3. Skimun

Frumtak Ventures mun ekki sjálfkrafa útiloka fjárfestingakosti á þeirri forsendu að umhverfismál, samfélagslegir þættir og stjórnarhættir séu ekki fullnægjandi heldur tala fyrir, styðja við og ýta undir jákvæða þróun í málaflokkunum tengdri fjárfestinga-kostum félagsins.

4. Viðmið og leiðbeiningar

Við mat á fjárfestingum er tekið mið af eftirfarandi atriðum:

  • Alþjóðalögum og alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur fullgilt.
  • Starfsleyfisskilyrðum.
  • UN Global Compact.
  • OECD Guidelines for Multinational Companies.
  • Leiðbeiningum Viðskiptaráðs, Nasdaq OMX Iceland og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja.
  • Leiðbeiningum Invest Europe um stjórnarhætti og ábyrgar fjárfestingar.

5. Samstarf

Frumtak Ventures er aukaaðili að Iceland SIF, en tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Frumtak Ventures leggur áherslu á að samstarfsaðilar þess séu þátttakendur eða taki tillit til viðmiða um ábyrgar fjárfestingar í starfsemi sinni. Frumtak Ventures leitast eftir samstarfi við aðra fjárfesta, sjóðsstjóra, greiningaraðila og hagsmunaaðila við að innleiða ábyrgar fjárfestingar á Íslandi.

6. Birting

Stefna þessi er birt á heimasíðu Frumtaks Ventures, www.frumtak.is.

7. Endurskoðun

Stjórn Frumtaks Ventures samþykkir stefnuna og fylgist með að henni sé framfylgt.

Stjórn Frumtaks Ventures endurskoðar stefnu þessa árlega.

 

Stefna þessi var samþykkt á stjórnarfundi Frumtaks Ventures þann 28. maí 2020