Frumtak Ventures hefur lokið við fjármögnun og stofnun nýs sjóðs, Frumtak III, sem er 7 milljarðar króna að stærð. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni fjárfesta í 8-10 fyrirtækjum fyrir um 200-500 milljónir króna í hverju félagi.  Fjárfestingatímabil sjóðsins er 5 ár og starfstími 10 ár, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.   

Frumtak III er sérhæfður vísisjóður sem mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum. Frumtak III sérhæfir sig ekki í einstökum greinum og mun fjárfesta með svipuðu sniði og fyrri Frumtakssjóðir með áherslu á hugvitsdrifin tæknifyrirtæki.  

Þannig hefur Frumtak III að markmiði að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa á að skipa öflugum teymum, sem geta orðið leiðandi á sínu sviði, með mikla möguleika til vaxtar og verðmætasköpunar og geta skilað góðri ávöxtun til fjárfesta.  Frumtak Ventures hefur sett sér sérstaka stefnu í ábyrgum fjárfestingum og mun það hafa áhrif á val á fyrirtækjum í eignasafn sjóðsins.

„Við erum stolt af árangri Frumtakssjóðanna sem hafa sýnt að fjárfesting í nýsköpun getur verið mjög arðbær bæði fyrir fjárfesta sem og samfélagið í heild sinni.  Það liggur fyrir að hagkerfið til framtíðar þarf að byggja á hugviti til verðmætasköpunar sem stuðlar að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma.  Við erum þakklát fyrir áframhaldandi stuðning og traust fjárfesta sem hafa flestir verið með okkur frá fyrsta sjóði sem var stofnaður 2009,“ segir Svana Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Frumtaks Ventures.

„Það er lykilatriði í starfi Frumtakssjóðanna að gera sér grein fyrir því að þetta er langhlaup sem snýst fyrst og fremst um fólk. Við gerum okkur sérstakt far um að eiga gott samstarf við stjórnendur og stofnendur fyrirtækjanna því þetta er almennt löng vegferð þar sem gagnkvæmt traust og virðing er forsenda þess að vel takist til. Bakgrunnur og reynsla okkar fjárfestingastjóranna verður þannig fyrirtækjunum vonandi að auknu liði, því að fjármagnið eitt og sér dugar ekki til.“

Frumtak Ventures er í dag rekstraraðili tveggja Frumtakssjóða, Frumtaks  og Frumtaks II. Fyrsti sjóðurinn var stofnaður árið 2009 og hafa sjóðirnir fjárfest í 21 fyrirtæki frá stofnun.  Hagnaður vísisjóða Frumtaks á árinu 2020 nam samanlagt 2,2 milljörðum.

Félagið var stofnað af Svönu Gunnarsdóttur og Eggerti Claessen og hafa þau verið fjárfestingastjórar Frumtakssjóðanna frá upphafi og fylgt eftir fjárfestingum sjóðanna. Þau hafa í starfi sínu hjá Frumtakssjóðunum setið í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í og tekið virkan þátt í að byggja upp farsæl fyrirtæki með stjórnendum þeirra eins og t.d. DataMarket, Meniga, Controlant, Valka, Sidekick og Kaptio. 

Nýverið bættist Ásthildur Otharsdóttir í hóp eigenda og fjárfestingastjóra Frumtaks Ventures og mun verða sjóðstjóri Frumtaks III. Hún var áður stjórnarformaður félagsins og býr m.a. að reynslu frá vaxtarfyrirtækjum sem hafa orðið leiðandi á alþjóðavísu, eins og Marel og Össuri. 

Í stjórn Frumtak Ventures sitja Magnús Torfason, dósent í nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands og frumkvöðull, formaður, Gunnar Engilbertsson, fjárfestir, og Sigríður Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Tesco Bank í Bretlandi.