Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið fjármögnun að fjárhæð 7,5 milljónir evra. Fjárhæðin jafngildir um 900 milljónum íslenskra króna. Fjármögnunin er í formi nýs hlutafjár frá sænska fjárfestingasjóðnum Industrifonden og jafnframt aukningar á hlutafé frá núverandi fjárfestum Meniga; Frumtak Ventures, Kjölfesta og Velocity Capital frá Hollandi.

Meniga er leiðandi á heimsvísu í þróun heimilisfjármálalausna fyrir banka og fjármálastofnanir sem notaðar eru í næstu kynslóð netbanka til að stórbæta þjónustu við viðskiptavini. Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims en þeirra á meðal eru Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Þannig eru hugbúnaðarlausnir Meniga notaðar í netbönkum í um 20 löndum með rúmlega 40 milljónir virka notendur.

Fjármögnuninni er ætlað að efla enn frekar sókn fyrirtækisins á erlenda markaði en auk áherslu á heimilisfjármálahugbúnað hefur Meniga meðal annars þróað neyslutengt tilboðskerfi (e. Card Linked Offers). Tilboðskerfinu er ætlað að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að spara með sérsniðnum tilboðum ásamt því að gera fyrirtækjum kleift að nýta betur markaðsfé sitt með því að ná til réttra viðskiptavina með beinum afsláttum. Íslenskum notendum Meniga stendur til boða að nýta sér slík tilboð, sem ganga undir heitinu ,,Kjördæmi” hérlendis, og aðrar lausnir Meniga gjaldfrjálst á www.meniga.is eða í Meniga appinu fyrir iPhone og Android síma.

Benedikt Orri Einarsson, fjármálastjóri Meniga: „Til að byggja upp fyrirtæki eins og Meniga sem hóf starfsemi sína á Íslandi með háleit markmið um vöxt á erlendum mörkuðum er mikilvægt að geta fengið alþjóðlega fjárfesta að borðinu með sérhæfða þekkingu sem nýtist alþjóðlegum tæknifyrirtækjum samhliða stuðningi innlendra aðila. Það er því ánægjulegt að bjóða Industrifonden velkominn í sterkan hóp fjárfesta til áframhaldandi uppbyggingar og vaxtar.“

Sofia Ericsson Holm frá Industrifonden mun taka sæti í stjórn Meniga í kjölfar fjármögnunarinnar.

„Meniga vinnur nú þegar með mörgum af stærstu bönkum heims enda er það eitt fremsta nýsköpunarfyrirtækið á sviði netbankalausna. Stafrænt umhverfi banka er að breytast og bankar eru í síauknum mæli að endurskoða stefnu sína á þessu sviði. Við erum því virkilega spennt fyrir þeim tækifærum sem búa í gagnadrifinni stafrænni bankastarfsemi og stolt af því að styðja við bakið á hinu frábæra teymi hjá Meniga“ segir Sofia Ericsson Holm frá Industrifonden sem leiðir fjármögnunina.